HÓMER - AUGNABLIK

Fréttaritari Hómers ákvað að dusta rykið af pennanum og skellti sér á leik stórliðsins á móti Augnablik á þriðjudagskvöldið í Bikarkeppni KSÍ.

Byrjunarlið Hómer: Gummi mark, Nonni Sprettur, Óli Geir, Nonni Sweeper, Elli, Valdi, Reynir, Óskar, Valli, Gústi og Mási.  Á bekknum sátu Gummi litli, Sindri, Berti (inn á fyrir Reyni á 70. mín.), Óli Hrannar (inn á fyrir Nonna Sprett á 80. mín) og Stjáni (inn á fyrir Óskar á 60. mín).

Hómeringar byrjuðu aftarlega og leyfðu vel spilandi Augnabliksmönnum að leika boltanum á milli sín en reyndu að verja síðasta þriðjung vallarins.  Þetta gekk mjög vel og voru Augnabliksmenn að skapa sér lítið þrátt fyrir fallegt spil út á vellinum.  En á 30. mínútu fékk Kristján, framherji Augnabliks, boltann inn fyrir og kláraði vel einn á móti Gumma, 0-1.  Þess má geta að áðurnefndur Kristján var kolrangstæður og slakt hjá dómaraparinu að láta það framhjá sér fara.  Nokkrum mínútum síðar skoraði miðjumaður Augnabliks með skoti frá vítateigslínu sem fór í varnarmann, að mér sýndist, og þaðan í netið, 0-2.  Hómeringar reyndu að færa sig framar og áttu nokkrar efnilegar sóknir þar sem lítið vantaði upp á að þeir næðu að skapa sér góð færi en staðan í hálfleik var 0-2.

Eftir eldmessu í hálfleik komu Hómeringar gríðarlega ákveðnir í seinni hálfleik.  Mási skoraði á 47. mínútu eftir að Gústi hafði sett hann einan í gegn, 1-2.  Frábær afgreiðsla.  Eftir þetta héldu Augnablikar áfram að halda boltanum án þess að skapa sér mikið af færum en þau færi sem þeir fengu stoppuðu öll á Gumma í markinu sem varði nokkrum sinnum mjög vel og greip oft vel inn í.  Hómeringar reyndu að færa sig framar eftir því sem leið á leikinn og í nokkrum tilvikum vantaði lítið upp á menn slyppu í gegn.  Óskar og Reynir þurftu báðir að fara útaf vegna meiðsla eftir brot og kjaftshögg frá leikmönnum Augnabliks, voru leikmenn Hómer sérstakleg ósáttir með að leikmanni Augnabliks hafi ekki verið refsað fyrir kjaftshöggið.  Á 91. mínútu skoruðu Augnabliksmenn sitt þriðja mark eftir skyndisókn, 1-3.  Hómeringar voru þá farnir framarlega og freistu þess að jafna en fengu markið í bakið.  3-1 fyrir Augnablik voru lokatölur.

Hómeringar eiga hrós skilið fyrir þennan leik þar sem andstæðingurinn er eitt albesta liðið í 3. deildinni.  Menn voru að berjast, héldu skipulaginu mjög vel og voru skynsamir.  Kannski hefði liðið átt að reyna að halda boltanum meira en það var einfaldlega mjög erfitt gegn þessu liði.  Dómarinn var svo sem ekkert að hjálpa Hómeringum heldur og flautaði öll vafaatriði með Augnablik og lét ótalinn tvö olnbogaskot.   Við því mátti svo sem búast að dómarinn myndi hallast að stærra liðinu.

Heilt yfir góður leikur sem gefur mjög góð fyrirheit fyrir sumarið.

Ég ætla að reyna að fylgjast með liðinu í sumar og skrifa inn leikjaumfjallanir hér á síðuna.

Feitur aðdáandi Hómer.


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 identicon

Glæsilegur leikur, allir eiga inni knús hjá mér.

Mamma (IP-tala skráð) 9.5.2012 kl. 15:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband